Hringurinn Logo

Lög félagsins

1. gr. Nafn og heimili:
Félagið heitir Hringurinn. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Markmið:
Markmið félagsins er að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna.

3. gr. Aðild:
Félagar geta þær konur orðið, sem vilja vinna að markmiðum félagsins og taka þátt í starfsemi þess. Umsóknir um inngöngu í félagið skulu berast stjórninni, sem tekur þær til umfjöllunar.
Umsókn skulu fylgja meðmæli tveggja félagskvenna, sem hafa starfað í félaginu í að minnsta kosti tvö ár.

4. gr. Félagsgjöld:
Allir félagar, nema félagskonur 80 ára og eldri, skulu greiða árgjald til félagsins. Hafi félagi ekki greitt árgjald sitt í þrjú ár, er stjórn heimilt að taka hann út af félagaskrá. Áður en slíkt er gert skal viðkomandi félaga þó tilkynnt um ákvörðunina skriflega. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg.

5. gr. Aðalfundur:
Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert og skal hann boðaður skriflega, eða á annan sannanlegan hátt, með minnst viku fyrirvara. Dagskrá skal fylgja fundarboði.
Aðalfundur telst löglegur sé rétt til hans boðað. Rétt til fundarsetu hafa allir skuldlausir félagar. Aðalfundur fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins.

Á fundinum skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:

  1. Skýrsla stjórnar um liðið starfsár.
  2. Skýrsla gjaldkera og ársreikningar, sbr. 10. gr.
  3. Skýrslur formanna nefnda.
  4. Ákvörðun árgjalds.
  5. Lagabreytingar, sbr. 11. gr.
  6. Stjórnarkjör, sbr. 6. gr.
  7. Kosning í nefndir, sbr. 8. gr.
  8. Ákvörðun um endurskoðun reikninga félagsins og sjóða í vörslu þess.
  9. Önnur mál.

6. gr. Stjórn:
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagskonum og fjórum til vara. Á aðalfundi ár hvert skal kjósa tvær konur í aðalstjórn og tvær í varastjórn til tveggja ára í senn. Stjórnarkjör skal vera skriflegt sé eftir því óskað og teljast þær kjörnar, sem flest atkvæði hljóta. Hljóti tveir eða fleiri frambjóðendur jafn mörg atkvæði skal hlutkesti ráða.
Formaður skal kosinn sérstaklega á aðalfundi annað hvert ár.
Ef formaður gefur ekki kost á sér til endurkjörs, skal tilkynna það á félagsfundi, eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir aðalfund.
Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér verkum og velur varaformann, ritara og gjaldkera. Stjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri og starfsemi félagsins á milli aðalfunda. Félagskonur skulu ekki sitja lengur í stjórn eða varastjórn en sex ár samfellt. Konur sem setið hafa í stjórn geta tekið sæti í stjórn að nýju eftir fjögur ár. Þó er formanni heimilt að sitja lengur ríki um það almenn samstaða.

7. gr. Félagsfundir:
Félagsfundir skulu haldnir einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina og skulu þeir boðaðir skriflega eða á annan sannanlegan hátt. Á fyrsta félagsfundi eftir aðalfund ár hvert, skal stjórn leggja fram starfs- og fundaáætlun næsta starfsárs, sem hefst að loknum aðalfundi.
Skylt er að halda félagsfund þegar a.m.k. 50 félagskonur óska þess skriflega og geta fundarefnis. Skal sá fundur boðaður á sannanlegan hátt og haldinn innan 14 daga frá því að krafa um það barst stjórn.

8. gr. Nefndir:
Í nefndir félagsins akal að jafnaði kosið á aðalfundi. Þær eru:
árshátíðarnefnd, sem undirbýr árshátíð félagsins;
baukanefnd, sem hefur eftirlit með fjáröflunarbaukum;
ferðanefnd, sem undirbýr ferðir á vegum félagsins;
félagsheimilisnefnd, sem hefur umsjón með félagsheimilinu;
fundakaffinefnd, sem undirbýr veitingar á fundum;
happdrættisnefnd, sem undirbýr og vinnur að jólahappdrættinu;
jólabasarnefnd, sem undirbýr og vinnur að jólabasarnum;
jólakaffinefnd, sem undirbýr jólakaffið;
jólakortanefnd, sem annast útgáfu og sölu jólakortanna;
uppstillingarnefnd, sem gerir tillögur um konur í stjórn og nefndir. Í nefndinni sitja þrjár konur og skal hún skila tillögum til félagsstjórnar a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund, vegna félagsstjórnar og nefnda sem kjósa skal í á aðalfundi;
veitingastofunefnd, sem er skipuð sjálfboðaliðum starfandi á veitingastofunni.

Stjórn er þó heimilt að skipa í nefndir, sem vinni að tilteknum málum í samráði við hana. Einnig má kjósa í nefndir á félagsfundum, ef þess gerist þörf. Félagskonum er skylt að taka kosningu eða skipun til starfa fyrir félagið, nema lögmæt forföll hamli. Þó getur kona sem gegnt hefur slíku starfi samfellt í tvö ár, skorast undan ábyrgðarstörfum næstu tvö ár.

9. gr. Ársreikningar og endurskoðun:
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Uppgjör og ársreikningar félagsins og sjóða á vegum þess, sem endurskoðaðir hafa verið af löggiltum endurskoðanda, skulu liggja frammi a.m.k. viku fyrir aðalfund.

10. gr. Ráðstöfun fjármuna og eigna félagsins:
Fjármunir félagsins skulu ávaxtaðir í banka með sem hæstri ávöxtun án áhættu.
Komi til meiriháttar ákvarðana, er varða fjármál félagsins, sjóða eða annarra eigna í þess vörslu, ber stjórninni að gefa félagsmönnum tækifæri til að ræða um þær á félagsfundi áður en endanleg ákvörðun er tekin.

11. gr. Lagabreytingar:
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf til þess samþykki 3/4 hluta fundarmanna.
Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. apríl ár hvert og skulu þær sendar út með fundarboði til aðalfundar.

12. gr. Heiðursfélagar:
Stjórn félagsins tekur ákvörðun um kjör heiðursfélaga.
Heiðursfélagi er kjörinn ævilangt, greiðir engin gjöld til félagsins og ber ekki skyldu til að starfa í nefndum félagsins.

13. Félagsslit:
Ákvörðun um slit á félaginu og ráðstöfun á eignum þess og sjóðum má aðeins taka á aðalfundi og þarf til þess samþykki 3/4 hluta fundarmanna.