Lög félagsins

Lög Hringsins

1. gr. Nafn og heimili
Félagið heitir Hringurinn. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur
Tilgangur félagsins er að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna. Félagið vinnur að markmiðum sínum með fjáröflun og ráðstöfun fjármuna, sbr. 5. gr. Félagskonur vinna að markmiðum félagsins í sjálfboðavinnu.

3. gr. Aðild
Félagið er kvenfélag og félagar geta þær konur orðið, sem vilja vinna að markmiðum félagsins og taka þátt í starfsemi þess. Umsóknir um inngöngu í félagið skulu berast stjórninni, sem afgreiðir þær með samþykki eða synjun. Umsókn skulu fylgja meðmæli tveggja félagskvenna, sem hafa starfað í félaginu í að minnsta kosti tvö ár.
Ákveði félagskona að segja sig úr félaginu skal tilkynna stjórn úrsögn skriflega.

4. gr. Félagsgjöld
Aðalfundur ákveður félagsgjöld.
Allar félagskonur skulu greiða félagsgjald gjald til félagsins nema þær sem eru 80 ára og eldri.
Félagskonur bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum eða öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.
Hafi félagskona ekki greitt félagsgjald í þrjú ár, er stjórn heimilt að taka hana af félagaskrá. Áður en slíkt er gert skal viðkomandi þó tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðun skriflega og henni gefinn kostur á að tjá sig.

5. gr. Sjóðir í vörslu félagsins
Barnaspítalasjóður Hringsins. Í Barnaspítalasjóð rennur öll fjáröflun á vegum félagsins auk styrkja og gjafa sem sjóðnum berast frá velunnurum. Úr Barnaspítalasjóði eru veittir styrkir til líknar- og mannúðarmála, sérstaklega í þágu barna í samræmi við tilgang félagsins, sbr. 2. gr. Sjóðurinn starfar samkvæmt samþykktum þar sem meðal annars er kveðið á um tilgang hans og meðferð fjár.
Samþykktir sjóðsins, sem og breytingar á þeim, skulu samþykktar á aðalfundi Hringsins.

Félagssjóður Hringsins. Í félagssjóð renna árgjöld, inngöngugjöld og ágóði af félagsfundum. Innkomu er ætlað að standa undir rekstrarkostnaði félagsins.

6. gr. Aðalfundur
Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert og skal hann boðaður skriflega, eða á annan sannanlegan hátt, með minnst tveggja vikna fyrirvara. Dagskrá skal fylgja fundarboði. Aðalfundur telst löglegur sé rétt til hans boðað. Rétt til fundarsetu og atkvæðisrétt hafa allar félagskonur sem eru skuldlausar við félagið. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála, sjá þó 12. og 13. gr.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
3. Skýrsla gjaldkera og ársreikningar, sbr. 10. gr.
4. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram til samþykktar, sbr. 10.gr.
5. Skýrslur formanna nefnda sbr. 9. gr.
6. Aðalfundur ákveður félagsgjald, sbr. 4. gr.
7. Samþykktir Barnaspítalasjóðs Hringsins, sbr. 5. gr.
8. Lagabreytingar, sbr. 12. gr.
9. Stjórnarkjör, sbr. 7. gr.
10. Kosning í nefndir, sbr. 9. gr.
11. Ákvörðun um endurskoðun reikninga félagsins og sjóða í vörslu þess, sbr. 10. gr.
12. Kosning endurskoðanda, sbr. 10. gr.
13. Önnur mál.

7. gr. Stjórn
Stjórn félagsins skal skipuð formanni og fjórum stjórnarkonum, og fjórum til vara. Á aðalfundi ár hvert skal kjósa tvær konur í aðalstjórn og tvær í varastjórn til tveggja ára í senn. Kjörgengar í stjórn félagsins eru þær félagskonur sem Uppstillingarnefnd gerir tillögur um og þær félagskonur, sem tilkynnt hafa stjórn um framboð til stjórnar mánuði fyrir aðalfund. Láti stjórnarkona af störfum í stjórn félagsins áður en kjörtímabili hennar er lokið skal á næsta aðalfundi kjósa í hennar stað fyrir það kjörtímabil sem fráfarandi stjórnarkona var kjörin til. Stjórnarkjör skal vera skriflegt sé eftir því óskað og teljast þær kjörnar, sem flest atkvæði hljóta. Hljóti tveir eða fleiri frambjóðendur jafn mörg atkvæði skal hlutkesti ráða.
Formaður félagsins skal kosinn sérstaklega á aðalfundi annað hvert ár. Ef formaður gefur ekki kost á sér til endurkjörs, skal tilkynna það á félagsfundi, eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir aðalfund.
Félagskonur skulu ekki sitja lengur í stjórn eða varastjórn en sex ár samfellt og er ekki heimilt að taka sæti í stjórn eða varastjórn að nýju fyrr en tvö ár hafa liðið frá fyrri stjórnarsetu. Þó er formanni heimilt að sitja lengur ríki um það almenn samstaða.
Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér verkum og velur varaformann, ritara og gjaldkera. Áður en gengið er frá vali gjaldkera, skal viðtakandi gjaldkeri skila inn sakavottorði á fyrsta stjórnarfundi. Stjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri og starfsemi félagsins á milli aðalfunda. Stjórn félagsins skal halda skrá yfir félagskonur. Stjórn setur sér starfsreglur þ.m.t. um tilgreindan skoðunaraðgang fráfarandi gjaldkera á bankareikningum til stuðnings viðtakandi gjaldkera.
Starfsreglur skulu kynntar á fyrsta félagsfundi eftir aðalfund.
Stjórnarkona skal ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef hún eða einhver henni nákominn á verulegra hagsmuna að gæta og víkur hún þá af fundi við afgreiðslu málsins.

8. gr. Félagsfundir
Félagsfundir fara með æðsta vald í málefnum félagsins.
Félagsfundir skulu haldnir einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina og skulu þeir boðaðir skriflega eða á annan sannanlegan hátt. Á fyrsta félagsfundi eftir aðalfund ár hvert, skal stjórn leggja fram starfs- og fundaáætlun næsta starfsárs, sem hefst að loknum aðalfundi.
Skylt er að halda félagsfund þegar a.m.k. 50 félagskonur óska þess skriflega og geta fundarefnis. Skal sá fundur boðaður á sannanlegan hátt og haldinn innan 14 daga frá því að krafa um það barst stjórn.

9. gr. Nefndir
Félagskonur inna af hendi vinnu í þágu félagsins og taka þátt í starfi nefnda. Í nefndir félagsins skal að jafnaði kosið á aðalfundi í samræmi við ákvæði þetta.
Uppstillingarnefnd er skipuð þremur konum sem kosnar eru á aðalfundi. Nefndin gerir tillögur um félagskonur í stjórn, Uppstillingarnefnd og fjáröflunarnefndir. Skal nefndin skila tillögum til félagsstjórnar a.m.k. fjórum vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Fjáröflunarnefndir félagsins sem kosnar eru á aðalfundi eru:
1. Baukanefnd, hefur eftirlit með fjáröflunarbaukum.
2. Gjafahornið, selur handavinnu Hringskvenna.
3. Krakkahornið, selur handavinnu Hringskvenna út í bæ
4. Happdrættisnefnd, vinnur að jólahappdrætti.
5. Hugmynda- og nýsköpunarnefnd, vinnur að nýjungum í fjáröflunum félagsins.
6. Jólabasarnefnd, vinnur að jólabasar Hringsins.
7. Jólakaffinefnd, vinnur að jólakaffi Hringsins.
8. Kortanefnd, annast útgáfu og sölu jóla – og tækifæriskorta.
9. Nefnd vegna Reykjavíkurmaraþons, skipuleggur fjáröflun og kynningu í tengslum við Reykjavíkurmaraþon.
10. Veitingastofunefnd, annast sjálfboðaliðastarf á veitingastofu félagsins á Barnaspítala Hringsins.

Stjórn er heimilt að skipa í aðrar nefndir, sem vinna að málefnum félagsins og félagsstarfi í samráði við hana. Einnig má kjósa í slíkar nefndir á félagsfundum, ef þess gerist þörf. Uppstillingarnefnd annast val á formönnum nefnda félagsins, sem ekki er kosið um á aðalfundi.

10. gr. Ársreikningar og endurskoðun
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Uppgjör og ársreikningar félagsins og sjóða á vegum þess, sem endurskoðaðir hafa verið af löggiltum endurskoðanda, skulu liggja frammi a.m.k. viku fyrir aðalfund.

11. gr. Ráðstöfun fjármuna og eigna félagsins og sjóða í vörslu þess
Fjármunir félagsins og sjóða í vörslu þess skulu ávaxtaðir í banka með sem hæstri ávöxtun án áhættu.
Komi til meiriháttar ákvarðana, er varða fjáröflunarleiðir, fjármál félagsins, sjóða eða annarra eigna í þess vörslu, ber stjórninni að bera þær upp á félagsfundi til samþykktar. Skulu þær kynntar í fundarboði.

12. gr. Lagabreytingar
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf til þess samþykki 3/4 hluta fundarmanna.
Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. apríl ár hvert og skulu þær sendar út með fundarboði til aðalfundar.

13. gr. Félagsslit
Ákvörðun um slit á félaginu má aðeins taka á aðalfundi og þarf til þess samþykki 3/4 hluta fundarmanna. Geta skal sérstaklega áforms um félagsslit í fundarboði.
Verði félaginu slitið skal eignum þess og sjóðum ráðstafað til tækjakaupa í þágu Barnaspítala Hringsins, en ekki til daglegs reksturs spítalans.

Samþykktir Barnaspítalasjóðs Hringsins

1. gr. Stofnendur
Kvenfélagið Hringurinn í Reykjavík sem var stofnað árið 1904 hefur í vörslu sinni sjóð sem nefnist Barnaspítalasjóður Hringsins. Stofndagur hans er 14. júní 1942.
Heimili og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur
Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til líknar- og mannúðarmála, sérstaklega í þágu barna.
Sjóðurinn styrkir fyrst og fremst tækjakaup til Barnaspítala Hringsins. Einnig styrkir hann Barna- og unglingageðdeild Landspítalans og önnur verkefni í þágu barna.

3. gr. Starfsemi og tekjur
Tekjur sjóðsins eru öll fjáröflun á vegum félagsins, auk styrkja og gjafa sem sjóðnum berast frá velunnurum. Félagskonur Hringsins vinna að fjáröflun fyrir Barnaspítalasjóð Hringsins í sjálfboðavinnu. Heimilt er að greiða úr sjóðnum nauðsynlegan kostnað fjáraflana.

4. gr. Stjórn
Stjórn Barnaspítalasjóðs Hringsins skipa þær konur er sitja í stjórn Hringsins hverju sinni, sbr. lög Hringsins. Sjóðstjórn ber ábyrgð á fjárvörslu sjóðsins og ráðstöfun fjármuna.
Stjórn sjóðsins skal varðveita eignir hans. Fjármuni sjóðsins skal ávaxta í banka með sem hæstri ávöxtun án áhættu.
Félagskonum skal reglulega gerð grein fyrir fjárhagsstöðu sjóðsins á félagsfundum.

5. gr. Umsóknir
Umsóknir um styrk úr sjóðnum skulu berast skriflega til stjórnar sjóðsins. Í umsókn skal ábyrgðarmaður umsóknar gera ítarlega grein fyrir því verkefni sem óskað er að verði styrkt.
Eingöngu er heimilt að veita styrki sem samræmast tilgangi sjóðsins, sbr. 2. gr. Ekki eru veittir styrkir til námsferða eða ráðstefna.
Stjórn tilkynnir umsækjanda um afgreiðslu umsóknar þegar hún liggur fyrir. Sé samþykktur styrkur ekki sóttur innan tveggja ára fellur hann niður.

6. gr. Úthlutun
Stjórnin úthlutar styrkjum úr sjóðnum í samræmi við tilgang hans og gerir grein fyrir úthlutunum á félagsfundum. Heildarúthlutun hvers árs úr sjóðnum skal almennt taka mið af árlegum tekjum og úthlutunum úr sjóðnum síðustu þrjú ár.
Stjórn er heimilt að veita allt að tíu milljóna króna styrk í hvert sinn til Barnaspítala Hringsins, hærri styrkveitingar skulu bornar upp til samþykktar á félagsfundi. Styrkveitingar til annarra verkefna að fjárhæð fimm milljónir króna eða meira skulu hljóta samþykki á félagsfundi Hringsins.
Stjórnarkona skal ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef hún eða einhver henni nákominn á verulegra hagsmuna að gæta og víkur hún þá af fundi við afgreiðslu málsins.

7. gr. Ársreikningar og endurskoðun
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Uppgjör og ársreikningar sjóðsins, sem endurskoðaðir hafa verið af löggiltum endurskoðanda, skulu liggja frammi a.m.k. viku fyrir aðalfund.

8. gr. Breytingar á samþykktum
Breytingar á samþykktum sjóðsins verða aðeins gerðar á aðalfundi Hringsins í samræmi við lög félagsins með samþykki 3/4 hluta fundarmanna.
Verði sjóðurinn lagður niður, skal eignum hans ráðstafað til tækjakaupa í þágu Barnaspítala Hringsins, en ekki til daglegs reksturs spítalans.