Um Hringinn

Hringurinn er kvenfélag, stofnað árið 1904. Félagið hefur að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna.

Aðalverkefni félagsins um áratugaskeið hefur verið uppbygging Barnaspítala Hringsins. Mörg önnur verkefni, sem tengjast veikum börnum, hafa verið studd og styrkt, þeirra á meðal Barna- og unglingageðdeildin og ýmis sambýli fyrir fatlaða svo fátt eitt sé talið.

Saga Hringsins

Fyrsta stórverkefni Hringsins laut að aðstoð við berklasjúka, sem þurftu á sjúkravist að halda. Mikil þörf var á hæli, þar sem sjúklingar gætu dvalið, er þeir kæmu út af sjúkrahúsi, uns fullum bata væri náð.
Hringskonur ráku búskap á jörðinni Kópavogi og reistu þar myndarlegt hæli, sem þær ráku um árabil. Þetta fyrsta hressingarhæli hérlendis var svo gefið ríkinu með öllum innanstokksmunum.

Skoða nánar

Félagskonur og fjáraflanir

Í félaginu eru nú um 360 konur á öllum aldri. Félagsfundir eru haldnir einu sinni í mánuði á veturna, félagskonum til fræðslu og skemmtunar. Starfsemin byggist hins vegar fyrst og fremst á því mikla starfi sem fram fer í nefndum félagsins.

Fjáröflunarleiðirnar eru söfnunarbaukar, sem staðsettir eru víða, s.s. í Leifsstöð, jólakaffi og happdrætti, sem haldin eru á aðventunni á hverju ári, jólabasarinn, sem haldinn er í nóvember á hverju ári, minningarkortin, sem seld eru allt árið, jólakortin, jólanæla og veitingasalan í Barnaspítalanum.

Sækja um aðild

Umsókn um inngöngu í Hringinn

Langar þig að starfa að góðu málefni í skemmtilegum félagsskap. Endilega kíktu á umsóknarformið okkar!