Saga Hringsins

Hringurinn er kvenfélag, stofnað árið 1904. Félagið hefur að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna.

Aðdragandinn

Kristín Vídalín Jacobson, Reykjavíkurstúlka, liggur fárveik á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn.
„Fröken Vídalín, yður batnar ekki hóstinn!”, var sagt við Kristínu Vídalín Jacobson veturinn 1893-1894 þegar hún var við listnám í Listaakademíu kvenna við Amalíugötu í Kaupmannahöfn og hafði tekið þá lífshættulegu veiki, sem kostaði hana sex mánaða sjúkrahúslegu.

Í þessum veikindum sínum hét hún því að næði hún heilsu á ný skyldi hún gera það sem í hennar valdi stæði til að bæta hag þeirra sem þyrftu að stríða við veikindi og efnaleysi. Þetta heit efndi hún er hún boðaði til stofnfundar Hringsins 26. janúar 1904 í húsnæði Hússtjórnarskólans á efri hæð í húsi Iðnaðarmannafélagsins (Iðnó) við Tjörnina í Reykjavík.

Næstu 39 árin stýrði Kristín farsælu starfi Hringsins, sem hafði í fyrstu það markmið „að safna fé til hjálpar tæringarsjúkum fátæklingum í Reykjavíkurkaupstað.”

1904 - 1942

Kristín stofnar kvenfélagið Hringinn sem reisir og rekur hressingarhæli fyrir berklasjúka.

Fyrsta stórverkefni Hringsins laut að aðstoð við berklasjúka, sem þurftu á sjúkravist að halda. Mikil þörf var á hæli, þar sem sjúklingar gætu dvalið, er þeir kæmu út af sjúkrahúsi, uns fullum bata væri náð.
Hringskonur ráku búskap á jörðinni Kópavogi og reistu þar myndarlegt hæli, sem þær ráku um árabil. Þetta fyrsta hressingarhæli hérlendis var svo gefið ríkinu með öllum innanstokksmunum.

Merki Hringsins

Hringurinn eignaðist sitt vel þekkta merki árið 1942, en það birtist fyrst í auglýsingu um útihátíð Hringsins í Hljómskálagarðinum í ágúst árið 1943. Ágústa Pétusdóttir Snæland, hannaði merkið, en hún var fyrsti Íslendingurinn sem lauk námi í auglýsingateiknun. Í miðju merkisins er hjúkrunarfræðingur í hjúkrunarbúningi þess tíma og með ungt barn í fanginu. Þau umlykur hringlaga borði með innrituðum hvítum texta: Hringurinn – barnaspítali. Æ síðan hefur þetta merki verið auðkenni félagsins.

1904 - 1942

Hringurinn setur sér það markmið „að komið verði upp barnaspítala hér á landi”.

Fundarsamþykkt 13. apríl 1942 gjörbreytti stefnu félagsins í líknarmálum. Samþykkt var að félagið skyldi beita sér fyrir því að komið verði upp barnaspítala, en brýn þörf var fyrir slíka stofnun. Þetta var þungur róður, en barnadeild var opnuð á Landspítalanum 19. júní 1957 og Barnaspítali Hringsins var tekinn í notkun 26. nóvember 1965. Á hverju ári eftir þetta voru keypt tæki, húsgögn og búnaður fyrir háar upphæðir fyrir Barnaspítalann, auk þess sem stofnanir svo sem Sólheimar, Reykjadalur og Krabbameinsfélagið hlutu ýmsa styrki. Hringurinn veitti á þessum árum hjúkrunarfólki einnig námsstyrki.
Eftir að Barnaspítalinn hafði verið opnaður var hugað að nýjum verkefnum og fljótt kom upp hugmynd um að beina athyglinni að börnum með geðræn vandamál. Vistheimili fyrir heimilislaus og illa stödd börn og unglinga hafði verið reist við Dalbraut í Reykjavík. Ákveðið var að síðasti byggingarhluti þess yrði sjúkradeild fyrir „börn með geðræna kvilla og hegðunarvandkvæði”. Hringurinn tók að sér að leggja til innanstokksmuni og annan nauðsynlegan búnað, eða „allt sem ekki var naglfast, frá títuprjónum til píanós”. Sjúkradeildin nefndist Geðdeild Barnaspítala Hringsins og var opnuð 19. mars 1971.

1984 - 2003

Frá 80 ára afmæli Hringsins er nýr barnaspítali á Landspítalalóð óskadraumur félagsins, en nýtt hús Barnaspítala Hringsins var vígt á 99 ára afmæli félagsins, 26. janúar 2003.

Í tilefni af 80 ára afmæli Hringsins árið 1984 var ákveðið að þaðan í frá skyldi meginmarkmið félagsins vera að stuðla að því að nýr og sérhannaður barnaspítali rísi á lóð Landspítalans. Árið 1994 var gerður rammasamningur þriggja aðila, Heilbrigðisráðuneytis, Ríkisspítala og Hringsins um byggingu nýs barnaspítala.

Árið 1997 var efnt til hönnunarsamkeppni um nýja spítalann og komu 1. verðlaun í hlut arkitektanna Sigríðar Magnúsdóttur og Hans-Olaf Andersen. Fyrsta skóflustungan var tekin af Ingibjörgu Pálmadóttur, heilbrigðisráðherra, þann 19. nóvember 1998.

Á árinu 2002 f ærðu Hringskonur Barnaspítalanum 200 milljónir króna til byggingar hússins og til kaupa á búnaði. Þann 26. janúar 2003, á 99 ára afmælisdegi Hringsins, var nýtt hús Barnaspítala Hringsins vígt við hátíðlega athöfn. Öll starfsemin var síðan flutt í nýja húsið 3. apríl 2003. Um það leyti opnaði Hringurinn litla veitingastofu í Barnaspítalanum. Síðla sama ár var gamla félagsheimilið á Ásvallagötu selt og nýtt og betra húsnæði keypt að Nethyl 2.

2004 Hringurinn 100 ára

Á árinu 2004 varð Hringurinn 100 ára. Stjórnin stóð fyrir veglegum hátíðahöldum í tilefni af afmælinu.

Í maí það ár gaf Íslandspóstur út 100 kr. frímerki tileinkað aldarafmæli Hringsins.

Gefnar voru 50 millj. kr. til innréttinga og búnaðar í fyrirhugaðri viðbyggingu Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans.

Í tilefni af 100 ára afmælinu var Barnaspítalanum gefin peningaupphæð til kaupa á íbúð fyrir foreldra veikra barna af landsbyggðinni.

Sama ár var ákveðið að Sjónarhóll, ráðgjafarmiðstöð barna með sérþarfir, fengi rekstrarstyrk til þriggja ára, 2 millj. kr. á ári.

Félagsheimili Hringsins að Nethyl 2 var tekið í fulla notkun og vígt í janúar 2004. Við það varð gjörbylting á aðstöðu félagskvenna til félagsstarfanna, sérstaklega til þeirrar miklu vinnu sem fram fer allt árið við undirbúninginn fyrir jólabasarinn og happdrættið.