Nýjar styrkveitingar – 20,6 milljónir
Nýjar styrkveitingar Hringsins hljóða upp á 20,6 milljónir króna. Stærsti styrkurinn er til Fósturgreiningardeildar LSH að upphæð 15 milljónir króna til kaupa á nýju fósturgreiningartæki.
Tveir styrkir eru veittir Hjarta- og lungnaskurðdeild LSH til kaupa á tveimur tækjum. Annars vegar tæki sem gerir kleift að hreinsa blóð sem fellur til við aðgerðir og gefa það aftur og annars vegar tæki sem mælir storku blóðsins, sérstaklega heparin.
Allt fé sem Hringskonur safna, gjafir og áheit rennur óskipt í Barnaspítalasjóð Hringsins. Allt starf er unnið í sjálfboðavinnu, yfirbygging félagsins er engin og félagið rekið með félagsgjöldum Hringskvenna sjálfra.
Hér fyrir neðan má lesa nánar um þau tæki sem Hringurinn styrkti kaup á að þessu sinni.
Fósturgreiningardeild LSH
Nýtt fósturgreiningartæki. Öllum þunguðum konum stendur til boða ómskoðun við 12 og 20 vikur þar sem ástand fósturs, fylgju og legvatns er metið. Einnig kemur hluti þungaðra kvenna í ómskoðanir á seinni hluta meðgöngu til dæmis vegna vaxtarseinkunar fósturs og við ákvörðun um fæðingu. Að jafnaði koma 50 konur á dag á fósturgreiningardeildina og á hverju ári eru gerðar 11 þúsund ómskoðanir. Nýja fósturgreiningartækið kostar 15 milljónir króna.
Hjarta- og lungnaskurðdeild LSH
Tæki til að hreinsa blóð sem fellur til við aðgerðir og gerir kleift að gefa blóðið aftur. Tækið eykur öryggi í aðgerðum og getur komið í veg fyrir blóðgjafir úr öðrum einstaklingi. Slíkar blóðgjafir eru dýrar og eru meira álag á ónæmiskerfið. Tækið nýtist meðal annars við stærri aðgerðir á börnum. Tækið kostar 2,7 milljónir króna.
Tæki til að mæla storku blóðsins, þá sérstaklega heparin sem er gefið í öllum hjartaaðgerðum. Mikilvægt er að gefa ekki of mikið af lyfinu til að ekki blæði of mikið í og eftir aðgerð og heldur má ekki gefa of lítið svo blóðið storkni ekki í vélinni. Slíkar mælingar eru sérstaklega mikilvægar hjá börnum. Tækið kostar 2,9 milljónir króna.