Hringurinn gefur koltvísýringsnema
Stjórn Hringsins samþykkti nýverið styrkbeiðni frá Vökudeild Landspítalans til kaupa á tveimur nemum til að mæla styrk koltvísýrings í útöndunarlofti barna sem eru í öndunarvél.
Í styrkbeiðninni kom fram að stór hluti barna á Vökudeild er með lungnasjúkdóm, svo sem lungnabólgu eða vanþroska lungu, sem getur valdið því að þau þurfa að fara í öndunarvél. Fylgst er vel með magni súrefnis og koltvísýrings í blóði barnanna til að ákvarða súrefnisgjöf og stillingar á öndunarvélinni. Með því að nota nema við útöndunarloft er hægt að fækka blóðtökum, auk þess sem neminn skynjar fljótt þegar breyting verður á magni koltvísýrings í blóði barnsins. Einnig merkir neminn strax ef barkarenna dregst úr barka barnsins sem getur verið lífshættulegt.