Hringurinn gefur hitakassa

Það gleður okkar jólahjarta að segja ykkur frá síðustu styrkveitingu ársins 2022. Fyrr í þessum mánuði samþykkti félagsfundur Hringsins styrk til Vökudeildar Barnaspítala Hringsins til kaupa á 1 stk. Isolette 8000 plus hitakassi og 2 stk. BabyLeo TN500 hitakössum að fjárhæð 13.704.016 kr.
 
Eitt af því mikilvægasta í umönnun nýfædda barna er að gæta þess að þau nái að halda á sér hita. Þetta á einkum við um fyrirbura og vaxtarskert börn, sem eru í mun meiri hættu á að kólna en vel nærð fullburða börn.
 
Ástæður þess að fyrirburar eru í hættu á að kólna eru að þeir eru með hlutfallslega stórt líkamsyfirborð miðað við þyngd, húð þeirra er þunn og einangrandi fitulagið undir húðinni er mjög þunnt. Einnig eru þeir með minna af brúnni fitu en fullburða börn, en við niðurbrot hennar myndast hiti, sem er helsta leið nýfæddra barna til að halda á sér hita.
 
Í dag eru hitakassar mjög fullkomnir. Þeir eru þéttir og hitatapið úr þeim lítið þó svo opna þurfi þar til gerða glugga til þess að hægt sé að koma höndum að börnunum við umönnun þeirra. Einnig er hægt að hafa raka í kössunum, sem minnkar uppgufun frá húð og þar með hitatap sem henni fylgir. Jafnframt eru sumir hitakassar hannaðir þannig að hægt er að lyfta loki sem er á kassanum til þess að auka aðgengi að barninu. Yfir þeim kössum er hitalampi sem heldur hita á barninu meðan kassinn er opinn.
 
Undanfarin ár hefur Vökudeildin mest notast við tvær tegundir af hitakössum og eru það þær gerðir sem Hringurinn styrkir nú.

Aðrar fréttir