Vökudeildin fær níu milljónir
Vökudeild Barnaspítala Hringsins átti 40 ára afmæli 2. febrúar.
Hringskonum var boðið til afmælishátíðar í tilefni dagsins og þar tilkynnti formaður félagsins, Sonja Egilsdóttir, að samþykktar hefðu verið styrkbeiðnir að upphæð níu milljónir króna.
Þeim verður varið til kaupa á eftirfarandi tækjabúnaði:
– Fjórir mælar sem notaðir eru til að meta og stýra þörf fyrir öndunarstuðning barns sem er á öndunarvél. Með búnaðinum er hægt að draga úr óþarfa inngripum og stungum til að taka blóðprufur. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir minnstu fyrirburana. Verð á þessum búnaði er tæpar sex milljónir króna.
– Einnig verða keyptar fimm brjóstamjólkurdælur og tíu mjólkurhitarar sem samtals kosta um þrjár milljónir króna.
Það er með mikilli ánægju og gleði sem Hringskonur afhenda þessar gjafir. Við þökkum starfsfólki Vökudeildarinnar fyrir frábært starf og óskum þeim alls hins besta í framtíðinni.