Tækjabúnaður fyrir 12 milljónir
Hringurinn hefur á síðustu mánuðum veitt styrki til að kaupa eftirfarandi tækjabúnað á Barnaspítala Hringsins og Svæfingadeildir LSH.
Sex rakatæki fyrir öndunarvélar á Vökudeild Barnaspítalans. Kr. 984 þúsund.
Beinmergsbor og beinmergsmálar fyrir Svæfingadeild E-5 og E-6 í Fossvogi. Kr. 112 þúsund. Slíkur bor er notaður ef ekki gengur að koma upp æðalegg til dæmis við endurlífgun eða aðrar bráðaaðstæður.
Barkakýlisspeglar fyrir Vökudeild Barnaspítalans. Kr. 425 þúsund. Þegar svæfa þarf börn fyrir aðgerðir eru þau nánast alltaf höfð á öndunarvél meðan aðgerðin er gerð. Til þess þarf oftast að setja í þau barkarennu. Það getur verið nokkuð vandasamt að koma barkarennum fyrir og til þess er notaður þar til gerður barkakýlisspegill sem svæfingalæknirinn notar til að sjá raddböndin sem er forsenda þess að hann geti komið barkarennunni á sinn stað.
Mæli og nemar í öndunarvél fyrir Vökudeild Barnaspítalans. Kr. 1.400 þúsund. Neminn er límdur laust á húð barns. Hann mælir stöðugt hlutþrýsting koltvísýrings í blóði barnsins í gegnum húð þess og birtir á monitorskjá. Með því að nota þennan búnað er hægt að draga úr óþarfa inngripum og stungum til að taka blóðprufur, sem annars þyrfti að gera. Það er sértaklega mikilvægt fyrir minnstu fyrirburana sem eru með afar viðkvæma og þunna húð Einnig er þetta tæki sérstaklega mikilvægt fyrir börn sem fæðast með alvarlegan fæðingargalla sem kallast þindarrslit og þurfa mikla öndunarvélameðferð.
Ómtæki til notkunar við hjartaaðgerðir á börnum fyrir Svæfinga- og gjörgæsludeild LSH. Kr. 9.000.000.- Hluti barna sem fæðast með hjartagalla fer í aðgerð hér á landi. Þegar ákveðið var að hefja þessar aðgerðir þurfti að leggja í kostnað vegna kaupa á ómtæki fyrir börn. Tæki þetta var notað í mörg ár en er nú ónýtt. Þannig er ekkert ómtæki til á landinu til að framkvæma ómskoðanir hjá börnum um vélinda við hjartaaðgerðir eða á gjörgæslu. Slíkt tæki er mikilvægt til að hámaka árangur aðgerðar og við eftirlit.
Samtals hljóða þessir styrkir upp á um 12 milljónir króna.