Hringurinn gefur ómskoðunartæki
Nýlega samþykkti stjórn Hringsins að styrkja Fæðingardeild Landspítalans um tæpar fjórar milljónir króna til kaupa á færanlegu ómskoðunartæki.
Styrkbeiðnin var til komin vegna COVID-faraldursins sem þá var yfirvofandi. Þungaðar konur sem smitast af veirunni og veikjast geta þurft á bráðri læknishjálp að halda. Upp geta komið merki um fósturstreitu og fyrirburafæðingar hjá veikum konum. Deildin þarf nauðsynlega að hafa tæki sem er auðveldlega færanlegt og gott.
Eldra tæki var komið til ára sinna og ekki fékkst fjármagn til að endurnýja það. Nýja tækið er sérstaklega þróað til notkunar í bráðaaðstæðum og er eitt það fullkomnasta sem völ er á fyrir fæðandi konur.