Sjö milljónir í meðferðaríbúð á BUGL
Hringurinn gaf sjö milljónir til að innrétta meðferðaríbúð á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL.
Hringsíbúðin, eins og hún er kölluð, bætir aðstöðu til fjölskyldumeðferðar í gegnum leik og aðra jákvæða samveru. BUGL veitir börnum og unglingum með geð- og þroskaraskanir margvíslega þjónustu. Á myndinni eru Vilborg G. Guðnadóttir, hjúkrunardeildarstjóri, Ólafur G. Guðmundsson yfirlæknir og Valgerður Einarsdóttir formaður Hringsins.
Íbúðin hefur verið tekin í notkun og af því tilefni var stjórn Hringsins boðið í heimsókn á BUGL. Í máli forsvarsmanna BUGL kom fram að stuðningur Hringsins í gegnum tíðina hefur verið lykilþáttur í að bæta þjónustu deildarinnar og í raun verið undirstaða þess að hægt hefur verið að fylgja þeirri framþróun sem orðið hefur í meðferðarúrræðum.
Hringurinn hefur stutt BUGL með ýmsum hætti. Stærstu verkefnin eru Hringsíbúðin, útipallur sem er í aflokuðu miðrými byggingarinnar og endurbætur á garðinum sem lokið var síðastliðið sumar. Þar sem áður var malbik eru nú leiktæki og fallegur gróður. – Sannkallaður ævintýragarður sem hefur gjörbreytt möguleikum til útivistar og ekki síst skapað börnunum og starfsfólki fallegt umhverfi.