10 milljóna styrkur til Vökudeildar

Stjórn Hringsins hefur samþykkt að veita Vökudeild Barnaspítala Hringsins tíu milljóna styrk til að kaupa augnbotnamyndavél. Tækið mun leysa af hólmi eldri myndavél sem Hringurinn gaf árið 2009.

Börn sem fæðast mikið fyrir tímann hafa óþroskað æðakerfi í augnbotnum. Þau geta fengið sjónhimnusjúkdóma þar sem óeðlilegar æðar fara að vaxa og getur það leitt til þess að sjónhimnan losnar frá augnbotninum, sé ekkert að gert og leiðir það til blindu.

Á Vökudeild skoðar augnlæknir öll börn sem fædd eru fyrir 31 vikna meðgöngu. Þau eru skoðuð með reglulegu millibili þar til þau eru um það bil fullburða og hættan gengin yfir. Mikilvægt er að greina þau börn sem fá alvarlegt stig sjúkdómsins og veita meðferð sem getur komið í veg fyrir sjónhimnulos.

Við skoðun á augnbotnum er notast við augnbotnamyndavél “Ret Cam” en mjög mikilvægt er að fá mynd af augnbotnunum til að auðvelda skoðun og fylgjast náið með breytingum.

Tækið er mjög mikilvægt ekki síst í ljósi þess að fyrirburar sem lifa eru jafnvel yngri en áður og fleiri sem fá þennan augnsjúkdóm og þurfa gott eftirlit.

Aðrar fréttir